Arborg-Tomas-1 sæti
Tómas Ellert Tómasson, bæjarfulltrúi Miðflokksins í Árborg

Samtök iðnaðarins (SI) hafa lengi barist fyrir því að ríki og sveitarfélög bjóði út kaup á vörum og þjónustu eftir skýrum og gegnsæjum reglum. Sú barátta hefur skilað því að ríkið og stofnanir þess hafa lagfært útboðsstefnur sínar og unnið eftir þeim. Jafnframt hefur SI bent á að það sama hafi ekki gilt um innkaup margra sveitarfélaga landsins og þá sérstaklega ef innkaup þeirra hafi verið undir viðmiðunarmörkum EES, þá hafi mörg þeirra álitið sem svo að þau hafi getað hagað innkaupum sínum að vild. Nú er að hefjast vinna hjá Svf. Árborg við að breyta innkaupastefnu og innkaupareglum sínum til samræmis við það sem best gerist á meðal opinberra aðila.

Lög um opinber innkaup

Lög um opinber innkaup 120/2016 munu að öllu leyti taka gildi fyrir innkaup sveitarfélaga landsins um mitt næsta ár eða þann 31. maí 2019. Markmið laganna er að tryggja jafnræði fyrirtækja, stuðla að hagkvæmni í opinberum rekstri með virkri samkeppni og efla nýsköpun og þróun við innkaup hins opinbera á vörum, verkum og þjónustu. Lögin segja að öll innkaup opinberra aðila á vörum og þjónustu yfir 15.500.000 kr. og verkum yfir 49.000.000 kr. skuli bjóða út og gera í samræmi við þau innkaupaferli. Einnig að við innkaup undir þeim viðmiðunarfjárhæðum sem tilgreindar eru skuli kaupandi svo ávallt gæta hagkvæmni og gera samanburð meðal sem flestra fyrirtækja. Nokkur sveitarfélög á landinu hafa nú breytt innkaupaferlum sínum til samræmis við löggjöfina frá 2016 og einhver hafa einnig lækkað viðmiðunarfjárhæðir vegna útboðsskyldunnar innanlands. Mikilvægt er orðið að Svf. Árborg hefji endurskoðun á innkaupastefnu og innkaupareglum sínum sem fyrst svo þeirri vinnu megi vera lokið fyrir maílok 2019, áður en lögin um opinber innkaup taka að fullu gildi.

Innkaupaferli verklegra framkvæmda

Lögin um opinber innkaup segja m.a. til um það hvaða innkaupaferlum skuli fylgja við kaup á verki. Þær útboðsaðferðir sem jafnan er algengast að nota við framkvæmdir eru opin og lokuð útboð ásamt verðfyrirspurnum og örútboðum. Samkvæmt skilgreiningu laganna er almennt opið útboð, innkaupaferli þar sem hvaða fyrirtæki sem er getur lagt fram tilboð en lokað útboð er innkaupaferli þar sem aðeins þau fyrirtæki sem valin hafa verið af kaupanda geta lagt fram tilboð, en hvaða fyrirtæki sem er getur sótt um að taka þátt í. Auk fyrrnefndra útboðsaðferða sem getið er um í lögunum, notast opinberir aðilar oft við annarskonar innkaupaferli við smærri verkefni þ.e. verðfyrirspurnir og örútboð. Verðfyrirspurnir og örútboð eru framkvæmd til að afla tilboða frá tilteknum aðilum sem taldir eru geta framkvæmt einhver ákveðin verk og er þá tilboða aflað á grundvelli skriflegra fyrirspurnargagna þar sem tilboð eru einnig skrifleg.

Hvaða innkaupaferla er viðeigandi að nota við útboð framkvæmda?

Lögin og handbókin um opinber innkaup leiðbeina um það hvaða innkaupaferla er viðeigandi að nota við útboð á framkvæmdum opinberra aðila eins og Svf. Árborgar. Sveitarfélagið líkt og aðrir opinberir aðilar getur ávallt valið milli almenns útboðs og lokaðs útboð. Lokuð útboð henta þó fyrst og fremst þegar um er að ræða stærri og flóknari samninga og æskilegt er að skoða tæknilegt og fjárhagslegt hæfi bjóðenda gaumgæfilega í forvali áður en að því kemur að þeir leggi fram tilboð. Í forvali vegna lokaðs útboðs skulu þá þátttakendur sem valdir eru til að leggja fram tilboð ekki vera færri en fimm, til að tryggja raunverulega samkeppni. Sem dæmi þá var ekkert af fyrrnefndum skilyrðum fyrir hendi vegna framkvæmdar viðbyggingar við leikskólann Álfheima á Selfossi og því var horfið frá þeirri leið sem áður hafði verið ákveðin á síðasta kjörtímabili þ.e. að viðhafa lokað útboð með forvali. Ákveðið hefur verið af nýrri stjórn framkvæmda- og veitusviðs Svf. Árborgar að framkvæmdin verði sett í opið almennt útboðsferli. Engar tafir munu verða á framkvæmdinni eða á verklokum frá því sem áður hafði verið ákveðið þó breytt hafi verið um útboðsaðferð vegna þeirrar framkvæmdar.

Ávinningur breytinganna

Hvað varðar innkaup sveitarfélagsins almennt, þá er ekki nóg að vera með vel útlítandi stefnur og reglur um innkaup ef svo er ekki farið eftir þeim. Samhliða þeirri endurskoðun sem fyrir höndum er á innkaupastefnu og innkaupareglum Svf. Árborgar þarf að styrkja og styðja við innkaupastjórnun sveitarfélagsins með sérstöku innkaupasviði eða innkaupastjóra í fullu starfi svo nást megi betri innsýn í útgjöld sveitarfélagsins og góð þekking á birgjamarkaði. Ávinningurinn af góðri innkaupastjórnun hefur sýnt sig, hjá öðrum opinberum aðilum, að geta skilað 10-20% sparnaði í innkaupum hvar samningar voru áður gerðir munnlega eða án þess að neinir afslættir hafi verið til staðar, þar af leiðandi getur góð innkaupastjórnun sparað sveitarfélaginu tugi milljóna á ári í rekstri þess. Með nýrri heimasíðu sveitarfélagsins sem er í vinnslu og markvissri fræðslu á meðal starfsmanna er hægt að auka vitund stjórnsýslunnar og seljanda verka, vöru og þjónustu um það hvernig þessum reglum skuli framfylgt svo engin óvissa sé svo um það hvernig Svf. Árborg muni haga viðskiptum sínum í framtíðinni. Ljóst má vera af framansögðu að ávinningur breytinganna muni verða til mikilla hagsbóta fyrir sveitarfélagið og þar með alla íbúa þess.

Tómas Ellert Tómasson,
Bæjarfulltrúi M-lista og formaður framkvæmda- og veitustjórnar í Svf. Árborg.

Greinin birtist í Suðra 16. ágúst 2018.

Auglýsingar